Einhvers staðar einhvern tímann aftur
Hólmavíkurlognið og Haglél áttu stefnumót í Bjarnarfirði 10. nóvember 2011. Við ætluðum sko ekki að missa af því. ,,Stingum af“ beið okkar og við stungum af og keyrðum yfir í fjörðinn fagra. Þú við stýrið. Mugison á sviðinu. Fólksfegurð í salnum. Og allt var eins og það átti að vera. Á leiðnni heim ræddum við stjörnubjartan himininn og stjörnuna Mugison og þetta magnaða allt og ekkert sem er þar á milli. Allt á milli himins og jarðar.
Tíminn virtist standa í stað. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum keyrðir þú á 30 - 40 km hraða. Við mjökuðumst löturhægt eftir veginum. Ég var róleg til að byrja með. En svo fór ég að undrast, alveg þangað til ég fór að ókyrrast. Þegar ókyrrðin jókst innra með mér og ég gat ekki hamið forvitni mína lengur snéri ég mér að þér og sagði: ,,Ásdís, ég verð bara að fá að spyrja þig, afhverju í veröldinni keyrir þú svona hægt?“ Þú leist ekki af veginum þegar þú svaraðir bæði rólega og hiklaust: ,,Afþví að ég vil ekki að þessi ferð taki enda“.
Ég elskaði hvernig þú gast stöðugt komið mér á óvart. Vakið með mér mína uppáhaldstilfinningu sem er sjálf undrunin. Þú varst stærri en ímyndurnaraflið mitt. Þú leiddir mig upp á splunkunýja og spennandi sjónarhóla. Hreyfðir við hugmyndum mínum og hugmyndakerfum. Hugmyndakerfum sem við sem samfélag erum oft pikkföst inn í, jafnvel án þess að gera okkur grein fyrir því. Þú varst sterkari en glerþökin sem þú braust, hvert á fætur öðru í gegnum lífið.