Um okkur

Minningin lifir

Minningar.is er gjaldfrjáls vefur sem auðveldar fólki að varðveita minningu látins ástvinar í öruggu og aðgengilegu umhverfi.

Vefurinn er jákvæður vettvangur sem styður við aðstandendur á erfiðum tímum með því að bjóða upp á hlýja, fallega og notendavæna alhliða veflausn sem heldur uppi minningum um látna ástvini. Vefurinn býður líka upp á hagnýtar upplýsingar um útfarir og annað sem tengist andlátum.

no image

Sagan

Minningar.is varð til í kjölfar þess að þrír nemendur í BS. námi í hugbúnaðarverkfræði við HR unnu lokaverkefni vorið 2021 sem bar heitið: „Rafræn þjónusta um minningargreinar og tengd málefni“.

Að útskrift lokinni langaði Kjartan Örn Bogason, Kristin Örn Kristinsson og Friðrik Snæ Ómarsson að láta reyna á að vinna verkefnið áfram og opna þjónustu um minningar og andlát fyrir íslensku þjóðina. Úr varð að englafjárfestingafélagið Tennin ehf. ákvað að gerast bakhjarl verkefnisins og stofnaði félagið Minningar ehf. til að halda utan um það. Framkvæmdastjóri Tennin ehf. og aðaleigandi ásamt Boga Þór Siguroddssyni eiginmanni sínum, er Linda Björk Ólafsdóttir, móðir Kjartans.  

Samstarfsfólk

Það var verkefninu mikil gæfa að Hugsmiðjan, ein af fremstu vefstofum landsins, var tilbúin að leggja því lið með vinnu við að móta hugmyndina og vörumerkið, auk hönnunar og ráðgjafar við tækniþróun. Hugsmiðjan hefur fylgt verkefninu eftir með mikilvægum stuðningi, einstakri fagmennsku og umhyggju.

Á haustmánuðum komu tvær einstakar konur til liðs við verkefnið. Ólöf Arnalds er vef- og ritstjóri en auk þess að vera þekkt tónlistarkona, þá hefur hún víðtæka reynslu í textagerð og í störfum fyrir auglýsingastofur. Sirrý Arnardóttir er talsmaður verkefnisins, en hún hefur yfir 30 ára starfsreynslu í fjölmiðlum auk margvíslegrar reynslu í kennslu, ráðgjöf og verkefnastjórnun af ýmsu tagi.

Páll Valsson, rithöfundur og útgáfustjóri, kom líka að verkefninu sem ráðgjafi.

Kynningarefni

Kvikmyndagerðarmennirnir Árni og Kinski og hinn þekkti ljósmyndari Ari Magg, hafa unnið einstaklega fallegt kynningarefni sem Minningar.is munu nota til að koma þjónustu sinni á framfæri. Þar er um að ræða kvikmyndaðar auglýsingar fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla ásamt ljósmyndum fyrir aðrar auglýsingar. Þetta fallega efni mun auk þess verða notað í myndskreytingu á vefnum sjálfum.

Kærleikur - Aðgengi - Vettvangur

Gjöf til þjóðar

Þjónusta Minningar.is er gjöf til íslensku þjóðarinnar og mun hún alltaf vera gjaldfrjáls almenningi, auk þess sem hugverkaréttur efnisins mun ávallt vera tryggður hjá höfundum hins birta efnis.